Staðfestingarmál vegna lögbanns á störf Helga Hermannssonar, fyrrverandi dagskrár- og markaðsstjóra Skjás 1, hjá 365 ljósvakamiðlum verður væntanlega flutt fyrir héraðsdómi í næsta mánuði, segir Magnús Ragnarsson sjónvarpsstjóri Skjás 1.

Sýslumaðurinn í Reykjavík féllst í maí á hluta af lögbannskröfu Skjás 1 og bannaði Helga, fram til 9. apríl á næsta ári, að starfa fyrir 365 eða önnur fyrirtæki í samkeppni við Skjá 1 nema í verkefnum á erlendum vettvangi. Þá var Helga bannað að hagnýta sér á nokkurn hátt atvinnuleyndarmál eða trúnaðarupplýsingar í eigu Skjás 1.

Krafan var reist á því að Helgi hefði brotið ákvæði ráðningsarsamnings síns hjá Skjá 1 með því að ráða sig í apríl síðast liðnum til 365 ljósvakamiðla. Helgi hélt því fram að hann hefði verið ráðinn til þess að sinna útrás 365 á erlendum vettvangi, en efasemdir hafa komið fram opinberlega um að verkefni hans séu eingöngu í útlöndum. Skjár 1 taldi enn fremur að Helgi hefði selt 365 viðskiptahugmyndina "Cirkus", sem væri eign Skjás 1.

Magnús Ragnarsson segir að báðir aðilar hafi skilað greinargerðum til héraðsdóms. Allt sé opið varðandi framhaldið; ekki sé til dæmis útilokað að höfðað verði einkamál á hendur Helga en ekkert sé afráðið með það.