Ekki er tilefni til þess að álagning á áfengi sem selt er í Fríhöfninni fylgi lögbundinni álagningu sem lög um verslun með áfengi og tóbak kveða á um. Þetta kemur fram í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins (FJR) til efnahags- og viðskiptanefndar.

Minnisblaðið var sent í kjölfar umsagnar Dista ehf. um fyrirhugaðar breytingar á tollalögum sem lagðar eru til vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA við sölu áfengis í Fríhöfninni.

Í minnisblaði FJR segir að markmið og starfsemi Fríhafnarinnar sé ólíkt ÁTVR þar sem Fríhöfnin starfi á „alþjóðlegum samkeppnismarkaði“. Meðal annars sé ekki rétt að Fríhöfnin birti með opinberum hætti sölutölur á áfengi, líkt og ÁTVR gerir mánaðarlega, þar sem slíkt gæti skaðað samkeppnisstöðu verslunarinnar.

Í viðbótarumsögn Dista kemur fram að félagið telji ekki rétt að ríkisfyrirtækið Fríhöfnin geti mismunað vörum innan sama vöruflokks með framlegðarkröfum eða geti horft til tekna af sölu á hilluplássi og auglýsingum við mat á framlegð. Einnig er dregið í efa að keppinautar, á borð við Kastrup og Heathrow, geti nýtt sér upplýsingar um sölutölur Fríhafnarinnar þannig að hið íslenska félag hljóti skaða af.