Markaður með leigubíla býr við alvarlegar samkeppnishindranir. Þetta segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Þar gilda lögbundnar aðgangshindranir sem takmarka nýliðun og samkeppni. Hann segir tímabært að þessi atriði verði tekin til endurskoðunar svo að eðlilegt samkeppnisumhverfi myndist.

Samkvæmt greinargerð með lögum sem voru sett árið 1953 í því skyni að koma á fjöldatakmörkunum á leigubílamarkaði var tilgangurinn sá að skapa tilbúinn skort til að tryggja hagsmuni leyfishafa með hárri verkefnastöðu og auknum tekjum. Lögin eru efnislega samhljóða núgildandi lögum hvað takmarkanir á fjölda varðar.

„Afleiðing af fyrirkomulagi þar sem samkeppnishindranir eru miklar eru almennt þær að samkeppni, bæði í verði og gæðum, verður af skornum skammti,“ segir Páll. „Einfaldasta og skilvirkasta leiðin til þess að reyna að ná fram hagstæðu verði og góðri þjónustu er að láta samkeppnina styðja við og hvetja til bæði betra verðs og bættrar þjónustu,“ bætir hann við. Stjórnvöld þurfi að kanna hagsmuni hverra sé verið að vernda með núverandi fyrirkomulagi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .