*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 4. ágúst 2020 07:03

Lögðu Basko til 300 milljónir

Skeljungur jók nýverið hlutafé Basko ehf. um 300 milljónir króna en mikið tap hefur verið á rekstri Basko.

Alexander Giess
Basko, dótturfélag Skeljungs, rekur verslanir 10-11.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Skeljungur jók hlutafé Basko ehf. um 300 milljónir króna í maí síðastliðnum. Basko er rekstraraðili 10-11, Kvikk, Extra og áður Dunkin Donuts. Mikið tap hefur verið á rekstri Basko en á síðasta reikningsári, frá 1. mars 2018 til 28. febrúar 2019, tapaði félagið 246 milljónum króna og ríflega milljarði króna árið á undan.

Basko stefndi í þrot haustið 2019 þegar Skeljungur keypti félagið fyrir 30 milljónir króna auk yfirtöku á 300 milljóna skuldum. Basko var að stærstum hluta í eigu framtakssjóðsins Horn III, sem er að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða, og hafði verið metið á 1.045 milljónir króna í lok árs 2018.

Ástæðuna fyrir ríflega milljarða tapi Basko árið 2018 má að stórum hluta rekja til endurskipulagningu félagsins, sem fólst meðal annars í því að loka öllum Dunkin Donuts stöðum sem dótturfélag Basko, Drangasker, hafði rekið. Að auki var nokkrum verslunum félagsins lokað og öðrum breytt úr 10-11 yfir í Iceland.

Rekstur Basko gekk því talsvert betur en afkoma þess gaf til kynna en rekstrartap félagsins nam 149 milljónum króna en framlegð þess var 3,1 milljarður. Á síðasta reikningsári nam framlegð 3,2 milljörðum króna og rekstrartap 137 milljónum króna. Handbært fé félagsins jókst um 134 milljónir á áðurnefndu tímabili og endaði því í 240 milljónum, 87 milljónir komu til vegna dótturfélags.

Tímamót í rekstri olíufélaga

Með kaupum Skeljungs á Basko tryggði félagið sér rekstur Kvikk, verslana við bensínstöðvar Skeljungs, og mótaði stefnu sína inn á smásölumarkaðinn. Slík þróun er í samræmi við aðrar bensínstöðvar landsins þar sem hin tvö stóru olíufélögin hafa gengið í gegnum talsverðar breytingar undanfarið. Smásölurisinn Festi hefur keypt N1 og Hagar hafa keypt Olís. Sambærilega þróun má sjá erlendis. Innkoma Skeljungs á smásölumarkaðinn þarf því ekki að koma á óvart.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Skeljungur Basko