Yfirvöld í Gíbraltar hafa lagt hald á eina þekktustu og þróuðustu snekkju heims. Fjallað er um málið á vef Bloomberg, en talið er að framleiðandi snekkjunnar standi í deilum við eiganda hennar vegna ógreiddra skulda.

Samkvæmt Gíbraltar Chronicle dagblaðinu, stendur skuldin í 15,3 milljónum evra. Snekkjan ber nafnið A, er alls 143 metrar á lengd og er smíðuð af þýska framleiðandanum Nobiskrug. Franski hönnuðurinn Philippe Starck tók þá einnig þátt í hönnun skipsins.

Tvær snekkjur bera nafnið A, en þær eru báðar í eigu rússneska milljarðamæringsins Andrey Melnichenko. Snekkjurnar teljast báðar afar sérstakar í útliti, ein er þó vélknúin, en sú sem hefur verið lagt hald á er útbúin seglum.

Vélknúna A-ið kom meðal annars til Íslands síðasta sumar.