Ein tillaga átakshópsins snýr að félagslegum markmiðum sem Dagur nefndi . Lagt er til að ríki og sveitarfélög taki upp viðræður um að lögfesta skyldu sveitarfélaga til að taka þátt í uppbyggingu á almennum leiguíbúðum.

„Við styðjum því þessar tillögur heilshugar. Frá árinu 2014 höfum við haft samningsmarkmið á okkar uppbyggingarsvæðum um að þar rísi ekki upp byggð fyrir einn hóp heldur verði þar ákveðin blöndun ólíkra þjóðfélagshópa. Með því að setja kvaðir í lögin er hægt að auðvelda sveitarfélögum að fylgja markmiðum sínum um félagslega blöndu.

Við höfum t.d. fundið fyrir því að það er erfiðara að koma þessum markmiðum að í uppbyggingu þar sem verið er að þétta byggð en þegar verið er að skipuleggja ný hverfi frá grunni. Löggjöf sem þessi mundi sannarlega hjálpa okkur í slíkum verkefnum."

Samgönguinnviðir forsenda

Það eru ekki bara karp um verð og félagsleg markmið sem hafa tafið fyrir að samkomulag um uppbygging á nýjum svæðum hafi náðst. Frekari uppbygging samgönguinnviða er víða forsenda fyrir því að ný byggð geti risið.

„Það er augljóst að þú bætir ekki umferð frá nýju hverfi við Miklubrautina eins og staðan er þar í dag. Það gengur auðvitað ekki upp að byggja upp húsnæði í blindni þar til samgöngukerfið springur.  Borgarlínan er því mikilvæg forsenda fyrir því að uppbygging á landinu að Keldum geti hafist.

Það eru í raun mikil tímamót í því að átakshópurinn átti sig á samspili samgönguinnviða og húsnæðisuppbygginga því þetta er líka kjaramál. Ef uppbygging verður eingöngu á þeim svæðum þar sem hver fjölskylda þarf að reka tvo bíla og aka langa vegalengdir verða hverjar þær kjarabætur sem menn ná saman um fljótar að hverfa," segir Dagur.

Fyrsti áfanginn í lagningu Borgarlínu verður unninn í samstarfi við ríkið. Áætlað er að verkið muni kosta 45 milljarða og framkvæmdin taki 10 til 15 ár. Uppbyggingin á Keldum er miðuð við annan áfanga Borgarlínunnar þannig að óbreyttu er ljóst að nýtt Kelduhverfi mun  hvorki skipta sköpum fyrir húsnæðismarkaðinn  né  kjarabaráttuna á næstunni.

„Annar áfangi Borgarlínunnar er vissulega svolítið langt inn í framtíðinni. Við erum hins vegar ánægð með að átakshópurinn taki þetta upp. Það væri óskandi ef þetta verður til þess að við hefjum samninga um skipulag sem taki mið að félagslegum markmiðum okkar. Og sömuleiðis verður þetta vonandi lóð á vogarskálina um nauðsyn þess að flýta uppbyggingu Borgarlínunnar," segir Dagur B. Eggertsson.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .