Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri Lögmannafélags Íslands (LMFÍ), segir eðli lögmennskunnar hafa breyst töluvert eftir hrun. Margir lögmenn starfi í tengslum við eftirmál hrunsins en sú vinna fjari hins vegarút með tímanum.

Í nýútgefinni ársskýrslu LMFÍ kemur fram að mikil fjölgun hafi verið á félagsmönnum LMFÍ á síðustu árum. Árið 2001 voru 588 skráðir félagsmenn en nú eru þeir orðnir 892. Fjölgaði félagsmönnum um 8% frá árinu 2010 og hefur þeim ekki fjölgað jafn mikið síðan milli áranna 2000 og 2001, en þá fjölgaði þeim um rúm 11%.

Verkefnin fjara út

Hvort óttast sé um offjölgun lögmanna segir Ingimar að það fari eftir því hvað taki við þegar eftirmálum hrunsins sé lokið.

„Mikið af þeirri vinnu sem nú er í gangi er tiltekt við eftirmál hrunsins en sú vinna fjarar smátt og smátt út.“ Þegar þeim verkefnum lýkur útilokar Ingimar ekki minnkandi atvinnumöguleika nýútskrifaðra lögfræðinga eða lögmanna.

„Það fer eftir því hver staða efnahagslífsins verður á næstu árum. Ef efnahagslífið fer ekki á flug með einhverskonar uppbyggingu á næstu árum má búast við því að lögfræðimenntaðir gætu átt erfitt með að fá vinnu.“

Helmingur karlanna starfa sjálfstætt

Starfsvettvangur lögmanna
Starfsvettvangur lögmanna
© vb.is (vb.is)

Í ársskýrslunni má sjá skiptingu félagsmanna í LMFÍ eftir því hvar þeir starfa. Töluverður munur er á kynjunum en 50% karlkyns félagsmanna eru sjálfstætt starfandi en aðeins 31% kvenna. Um 39% kvenna vinna sem innanhússlögmenn (þ.e. hjá ríki, sveitarfélagi, fyrirtæki eða félagssamtökum) en einungis 26% karla. Þá eru 29% kvenna fulltrúar lögmanna og 18% karla.

Nánari umfjöllun um málið er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Hægt er að nálgast það í slánni hér að ofan undir tölublöð.