Guðmundur Gísli Ingólfsson, lögfræðingur úr fyrsta útskriftarárgangi lagadeildar Háskólans í Reykjavík, hlaut í mars síðastliðnum lögmannsréttindi í New York ríki í Bandaríkjum að því er kemur fram í tilkynningu.

Guðmundur hefur verið við nám og störf í New York síðan 2006 en þangað fór hann til að taka LL.M próf í hugverkarétti ásamt því að ljúka samhliða ML ritgerð sinni af alþjóðasviði við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Guðmundur starfar  nú fyrir fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

Til öflunar lögmannsréttinda í Bandaríkjunum þurfa lögfræðingar, með íslenskt lagapróf, fyrst að útskrifast með gráðu frá viðurkenndum bandarískum lagaskóla.

Í náminu fer m.a. fram kennsla í ákveðnum grunnfögum bandarísks réttarfars. Að því loknu þarf viðkomandi að standast málflutningspróf, svokallað „bar exam".

Lögmannsréttindi eru veitt við opinbera athöfn áfrýjunardómstóls ríkisins þar sem verðandi lögmenn sverja til þess gerðan eið og skrá nafn sitt í bók lögmanna.

Að því loknu bera þeir starfsheitið „attorney at law" og geta starfað í ríkinu að lögfræðistörfum og lögmennsku.

Málflutningsprófið í New York þykir erfitt og er fallhlutfall almennt hátt.