Lögfræðistofunni Fulltingi ehf. hefur verið skipt upp í tvö sjálfstæð fyrirtæki: Fulltingi slysa- og skaðabótamál ehf. og Fulltingi lögfræðiþjónustu ehf.

„Með þessum hætti fást skýrari áherslur í rekstri en einnig fylgja breytingar á eignarhaldi. Breytingarnar tóku gildi miðað við 1. janúar 2008,“ segir í tilkynningu frá Fulltingi ehf.

„Samhliða þessum breytingum hefur tækifærið verið nýtt til að stokka upp eignarhald á félögunum. Þannig hafa dugmiklir lögmenn sem unnið hafa fyrir Fulltingi undanfarin ár gengið til liðs við eigendahópinn,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Við þessar breytingar, þá verða eigendur Fulltingis lögfræðiþjónustu ehf. þau; Anton Björn Markússon hrl., Guðmundur Siemsen hdl., Jón Ögmundsson hdl., Kristinn Hallgrímsson hrl., Óskar Norðmann hdl. og Sigrún Helga Jóhannsdóttir hdl.

Eigendur Fulltingis – slysa og skaðabótamál ehf. verða þau Óðinn Elísson hdl. og Bergrún Elín Benediktsdóttir hdl.

„Með þessum breytingum vilja eigendur Fulltingis tryggja að viðskiptavinir hvors fyrirtækis njóti sérfræðiþekkingar og kunnáttu sem á þarf að halda hverju sinni og að nýju fyrirtækin fái færi á að vaxa og eflast enn meir, hvort á sínu sviði. Horft verður til þess í framtíðinni að auka enn frekar við öflugan hóp sérfræðinga og stefnan lögð á að byggja upp skýra og hnitmiðaða lögfræðiráðgjöf, annars vegar á sviði skaðabótaréttar, en hins vegar fyrir fyrirtæki, stofnanir, banka, sveitarfélög og einstaklinga sem grundvallast á þeim sterka grunni sem Fulltingi byggir á í dag,“ segir í tilkynningu.

Starfsemi beggja fyrirtækjanna, Fulltingi lögfræðiþjónustu ehf. Og Fulltingi slysa- og skaðabótamál ehf., verður áfram að Suðurlandsbraut 18, 2. hæð, Reykjavík, og deila fyrirtækin með sér sama húsnæði og þau höfðu áður, enda mun samstarf verða með þeim áfram á ýmsum sviðum þar sem hagsmunir beggja fara saman.