*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 22. maí 2013 15:49

Löggan stoppaði Sigmund fyrir hraðakstur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og aðstoðarmaður hans voru stöðvaðir vegna hraðaksturs í Mosfellsdal á leið frá Laugarvatni.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Menn hafa í nógu að snúast við myndun nýrrar ríkisstjórnar og þá sérstaklega þegar forsvarsmenn hennar halda blaðamannafundi út á landi á milli þess sem þeir þræða fundi í borginni.

Lögregla á Höfuðborgarsvæðinu stöðvaði bifreið þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins og verðandi forsætisráðherra, og Jóhannesar Þórs Skúlasonar, aðstoðarmann hans, í Mosfellsdalnum um klukkan tvö í dag. Þeir voru á leið til höfuðborgarinnar frá Laugarvatni þar sem Sigmundur Davíð hafði ásamt Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, kynnt og undirritað stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar fyrr í dag.

Jóhannes Þór sat undir stýri.  Eins og venja er þurfti Jóhannes að fara yfir í lögreglubifreiðina og svara þar fyrir aksturslagið. Eins og sjá má ef rýnt er í myndina sat Sigmundur Davíð eftir í farþegasætinu og talaði í síma.

Á meðal þess sem fram kemur í stjórnarsáttmála þeirra Sigmundar og Bjarna segir að ný ríkisstjórn þeirra leggi áherslu á að efla löggæsluna. 

Hér sést Sigmundur Davíð ganga frá Jóhannesi og bílnum þegar hann fór til fundar við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, við Bessastaði í morgun.