Lögmaður BSRB mun skoða hvort tilefni er til að bregðast við flutningi Fiskistofu til Akureyrar, segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í samtali við Morgunútvarpið á RÚV.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tilkynnti starfsmönnum Fiskistofu frá því á föstudaginn að til stæði að flytja stofnunina til Akureyrar. Um helgina hafa bæði Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við Lagadeild Háskóla Íslands, og Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður lýst því að Alþingi þyrfti að eiga aðkomu að slíkri ákvörðun með lagasetningu.

Elín Björg sagði í samtali við Morgunútvarpið að starfsfólk Fiskistofu hefði leitað til BSRB á föstudaginn. „Lögmaður BSRB mun fara í það að skoða þessi mál og þau verða skoðuð áfram,“ sagði hún.