Fyrirtaka í máli Sigurðar Hreins Sigurðssonar og Mariu Elviru Mendez Pinedo gegn slitastjórn Frjálsa fjárfestingarbankans fór fram í dag. Þau unnu svokallaðan gengislánadóm gegn þrotabúi bankans í Hæstarétti í febrúar þegar dómurinn kvað úr um að vaxtaútreikningur sem stuðst var við væri ekki réttur og að lög sem Alþingi setti um gengislán í árslok 2010 brytu gegn stjórnarskrá.

Ragnar H. Hall, lögfræðingur hjónanna lagði fram greinargerð í málinu og fengu lögmenn slitastjórnarinnar frest fram til 25. október til að svara greinargerðinni. Ragnar segir að honum þyki 2 vikur hafa verið eðlilegur frestur en að lögmenn slitastjórnarinnar hafi lagt allt kapp á að fá lengri frest. „Þeir virðast virðast vilja tefja þetta eins og þeir geta," segir Ragnar sem telur þá afstöðu sérstaka í ljósi þess að talað væru um hve mikilvægt væri að fá dóma sem allra fyrst í gengislánamálum.

Hæstiréttur hefur dæmt í tveimur málum hjónanna og slitastjórn Frjálsa fjárfestingabankans. Þau Sigurður og Maria tóku fimm gengistryggð lán hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum á árunum 2004 til 2006. Þau leitast nú við að fá upplýsingar um stöðu lána sinna hjá þrotabúi Frjálsa fjárfestingarbankans. Þrátt fyrir dóm Hæstaréttar hefur slitastjórnin neitað að gefa það upp fyrr en búið verður að dæma í málum sem eiga að skera úr um það hvernig eigi að endurreikna lánin.

Ragnar furðar sig á því hversu erfitt það virðist að fá gefið upp hver krónutalan sé sem hjónin eigi að skulda slitastjórninni. Ekki sé ágreiningur um hversu mikið þau hafi greitt hingað til.