Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu Gunnars Andersen í máli Ríkissaksóknara gegn Gunnari Andersen fór fram rétt í þessu. Gunnar er ákærður fyrir brot á þagnarskyldu og brot í opinberu starfi. Guðjón Ólafur Jónsson, lögmaður Gunnars, byggði kröfuna á því að vararíkissaksóknari, Helgi Magnús Gunnarsson, sé vanhæfur til að gefa út ákæru í málinu og fara með það fyrir dómi.

Þegar starf forstjóra FME var auglýst til umsóknar árið 2009 hafi Helgi sótt um starf forstjórans. Vísaði Guðjón máli sínu til stuðnings í frétt Morgunblaðsins um umsókn Helga. Ástæða vanhæfis Helga segir Guðjón að hann hafi keppt við Gunnar um embætti FME og látið í lægri hlut í þeirri keppni, þar sem Gunnar hafi verið metinn hæfari en Helgi. Þá sagði hann að ákæra ríkisvaldsins væri óskýr „bastarður“.

Í máli sínu sagði Guðjón að það hafi eflaust verið Helga persónulegt áfall að hafa ekki fengið embætti forstjóra FME. Þetta verði að hafa í huga í ljósi hlutlægnisskyldu ákæruvaldsins, sérstaklega þegar um er að ræða einstakling, sem hafi unnið persónulega samkeppni við handhafa ákæruvaldsins í málinu.

Ef vararíkissaksóknari væri langrækinn maður og hefnigjarn og vildi ná sér niður á manninum sem hlaut embætti forstjóra FME þá veita þessar aðstæður honum tækifæri til þess. Tók Guðjón það fram að hann væri ekki að gera Helga Magnúsi upp slíkar kenndir. Reglur um vanhæfi ættu m.a. að draga úr tortryggni á málsmeðferð, en aðstæðurnar í þessu máli væru til þess fallnar að ýta undir slíkri tortryggni.