Gísli Guðni Hall hrl., lögmaður Hannesar Smárasonar, segir DV fjalla um mál er tengjast Hannesi með ógeðfelldum hætti og oft rógburði, sem eigi ekki við nein rök að styðjast. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Gísli Guðni hefur sent frá sér, m.a. vegna frétta sem birtust í DV í morgun af rannsóknum á málum Hannesar er hann starfaði hjá FL Group.

Um þau mál hefur ítarlega veri fjallað á síðum Viðskiptablaðsins en rannsókn stendur nú yfir á ýmsum þáttum í rekstri FL Group. Meðal annars millifærslu á þremur milljörðum króna inn á bankareikning í Lúxemborg árið 2005.

Gísli Guðni segir að umbjóðandi sinn hafi skýrt sína hlið á þessari millifærslu í yfirheyrslu hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, skattrannsóknarstjóra og raunar einnig hjá embætti sérstaks saksóknara. Þá sendi Hannes embættinu bréf 23. júní 2009 þar sem farið var yfir þau mál sem til rannsóknar eru.

Yfirlýsing Gísla Guðna er eftirfarandi:

„YFIRLÝSING

Á forsíðu DV, sem kom út í morgun, var slegið upp mynd af umbjóðanda mínum, Hannesi Þór Smárasyni, með fyrirsögninni „LÖGREGLAN Á EFTIR HANNESI".  Á forsíðunni er ritað undir með feitu letri:  „3.000 milljónir FL Group hurfu í Lúx  - Millifærslunni leynt fyrir stjórn - Nýtt vitni varpar ljósi á málið - Lögreglan komin á fulla ferð - Hannes yfirheyrður". Í nánari umfjöllun um málið inni í blaðinu eru þó engin ný tíðindi, heldur rifjað upp mál sem fjölmiðlar hafa oftsinnis fjallað um áður.

Í júní 2009 gerði embætti ríkislögreglustjóra húsleit meðal annars hjá  Hannesi.  Í húsleitarúrskurði kom fram að rannsóknarefnin væru millifærsla á kr. 3.000 milljónum árið 2005, kaup FL Group á flugfélaginu Sterling og ætluð skattalagabrot.  Undirritaður ritaði saksóknara efnahagsbrota ítarlegt bréf 23. júní 2009, þar sem hlið Hannesar var útskýrð og áréttað að engin lögbrot hefðu verið framin.  Hannes hefur gefið skýrslu bæði hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.  Reyndar hefur hann einnig gefið skýrslu hjá sérstökum saksóknara.

Hvað fyrrnefnd rannsóknarefni varðar er ekki að sjá að neitt nýtt hafi gerst í málunum.  Reyndar átti sér stað það „slys" saksóknara efnahagsbrota að hann afhenti utanaðkomandi aðila rannsóknargögn, þannig að lagt hefur verið út af þeim í fjölmiðlum, sundurslitið, og ályktað ranglega eftir því.  Umbjóðandi minn ítrekaði nú nýverið kröfu, sem hann hafði sett fram áður, að ríkislögreglustjóri felli niður rannsókn á hendur honum.  Sagður grunur, sem var fyrir hendi er húsleit var gerð  fyrir bráðum tveimur áðan síðan, geti ekki  verið til staðar lengur.

Hvað umrædda millifærslu varðar skal áréttað að um er að ræða ráðstöfun FL Group frá því í apríl 2005.  Á sínum tíma var löggiltum endurskoðanda félagsins falið að rannsaka fjárstýringu FL Group, m.a. umrædda millifærslu.  Í minnisblaði endurskoðanda til stjórnarformanns FL Group kom fram að tilgreind fjárhæð hafi verið lögð inn á bankareikning FL Group hjá Kaupþingi Luxembourg til ávöxtunar og færð til baka í júnímánuði 2005, ásamt vöxtum.  Fjármunirnir hafi aldrei ratað í hendur Hannesar, aðila á hans vegum eða annarra.  Fjármunirnir hafi aldrei staðið öðrum til ráðstöfunar en FL Group hf.   Þetta var upplýst í fjölmiðlum fyrir mörgum árum síðan.  Yfir þetta var farið í fyrrnefndu bréfi til saksóknara efnahagsbrota í 23. júní 2009, og um sama leyti birti Hannes opinbera yfirlýsingu, þar sem afstöðu hans til rannsóknarefnanna var lýst og látin í ljós von um að fjölmiðlar biðu með að kveða upp dóm um mál meðan þau eru til rannsóknar.

Umbjóðandi minn á örðugt með að bera hönd fyrir höfuð sér í fjölmiðlum meðan mál hans eru til opinberrar  rannsóknar.  Undanfarin misseri hefur hann þurft að þola umfjöllun fjölmiðla, sem fer út fyrir öll mörk.  Í síðustu viku birti DV t.a.m. um hann níðvísu - e.k. bölvun, sem einhver á að hafa látið frá sér fara á Facebook síðu.  Að fjölmiðill dreifi slíku er ógeðfellt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og hið sama á við forsíðufrétt DV í dag.  Gefið er í skyn að umbjóðandi minn sé stórglæpamaður sem lögregla sé á eftir, en hvorugt á við rök að styðjast.  DV dreifir hér, sem fyrr, rógburði sem á ekkert skylt við fjölmiðlun.

Virðingarfyllst,

Gísli Guðni Hall, hrl.“