Yfirskattanefnd staðfesti nýverið úrskurð ríkisskattstjóra um að hækka tekjuskattsstofn lögmannsins Einars Páls Tamimi um tæplega 46 milljónir króna gjaldárið 2014. Töldu skattayfirvöld að sala Einars á ótryggðri kröfu til Giggs ehf., sem var að fullu í hans eigu, hefði falið í sér óheimila úthlutun fjármuna úr einkafélagi hans sem bæri að virða honum til tekna.

Atvik málsins tengjast að stórum hluta einkahlutafélaginu Murr ehf. en það var stofnað árið 2008. Stærsti hluthafi þess var fyrrnefndur Einar Páll með tæplega 68% hlut. Einhver kunna að muna eftir því nafni en það framleiddi fóður fyrir hunda og ketti úr afurðum sem vanalega hefði verið fleygt í sláturhúsum landsins. Félagið starfrækti verksmiðju sína í Súðavík og hafði hafið innreið á erlenda markaði með afurð sína þegar halla fór undan fæti.

Líkt og oft vill verða með sprotafyrirtæki getur liðið talsverður tími frá vöruþróun og þar til þau fara að skila tekjum. Sú var reyndin með Murr. Samkvæmt síðasta ársreikningi Murr ehf., sem er fyrir rekstrarárið 2012, nam tap af starfseminni tæplega 64 milljónum króna. Eignir félagsins voru metnar á 62 milljónir króna en skuldir voru 125 milljónir króna. Þá var eigið fé neikvætt um tæplega 72 milljónir króna.

Lánaði fyrir ýmsum útgjöldum

Á fyrstu árum þess lánaði Einar Páll, sem í fyrstu átti 42,5% hlut í því, félaginu fyrir ýmsum kostnaði. Meðal annars hafði hann staðið straum af útgjöldum við gerð markaðskönnunar, staðið skil á gjaldföllnum lífeyrissjóðsgjöldum og lánað félaginu fé í litlum skömmtum til að halda því á floti. Sumarið 2013 hafi honum orðið ljóst að engin rekstrarleg rök stæðu til þess að gera þetta allt persónulega enda hefði hann þá misst af því hagræði sem fylgir því að hafa kröfuna innan einkahlutafélags. Varð það úr að hann seldi einkahlutafélagi sínu, Giggs ehf., kröfuna, rétt tæpar 46 milljónir króna miðað við stöðu í árslok 2012, á nafnvirði.

Að mati ríkiskattstjóra (RSK) var umræddur gjörningur nokkuð undarlegur í ljósi fjárhagslegrar stöðu Murr á þessum tíma. Sala á kröfunni til einkahlutafélags hefði tæplega verið gerð í hagnaðarskyni fyrir félagið enda talsverður vafi uppi um hvort hún myndi innheimtast. Í raun hefði nær verðlaus krafa verið seld milli tengdra aðila og flest benti til þess að með því hefði fjármunum verið úthlutað úr einkahlutafélaginu í andstöðu við reglur félagaréttarins. Engin trúverðug viðskiptarök hefðu verið færð fyrir gjörningnum og hann því að engu virðandi í skattalegu tilliti.

Viðskiptablaðið hafði samband við Einar Pál og spurðist fyrir um hvort hann hygðist una niðurstöðunni. „Mér dettur ekki í hug að taka þessu líkt og hverju öðru hundsbiti og hyggst stefna málinu fyrir dóm,“ sagði Einar Páll. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið umfram það sem fram kemur í úrskurðinum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .