Ólöf Þóranna Heimisdóttir þarf ekki að greiða Íslandsbanka tæpar 20 milljónir króna vegna láns sem tekið var fyrir stofnfjárkaupum í Byr árið 2007. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þessari niðurstöðu í morgun. Íslandsbanki stefndi Ólöfu Þórönnu Heimisdóttur til greiðslu á láninu. Hún er fædd 1932. Stofnfjáreign hennar í nóvember 2007 nam 1.065.985 krónum að nafnvirði.

Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Ólafar, segir dóminn vera frábæra niðurstöðu. Hafi Glitnir ætlast til þess að lán til stofnfjáraukningar væru bundin persónulegri ábyrgð sé ljóst að það eigi ekki við eftir daginn í dag. „Niðurstaðan í þessu er sú að Glitnir hagaði sér ekki með forsvarslegum hætti þegar þessi lán voru veitt á sínum tíma.“

Hann telur málið hafa klárt fordæmisgildi fyrir aðra stofnfjáreigendur sem tóku viðlíka lán. „Ég er með 50-60 manns. Það var alltaf gengið út frá því að allur sá hópur væri þarna undir. Það eru mínir skjólstæðingar en svo munu margir aðrir einnig njóta góðs af þessari niðurstöðu.“

Í dóminum kemur fram að Ólöf ákvað að taka tilboði Glitnis um lán til að fjármagna kaupin á nýju stofnfé í Byr árið 2007. Við fall Glitnis færðist lánið yfir til Íslandsbanka. Ölöf byggir sýknukröfu á því að samið var um að áhætta af lánveitingunni yrði alfarið bundin við stofnbréfin sjálf en ekki aðrar eignir hennar.

Niðurstaða dómara var sú að Íslandsbanka sé einungis unnt að leita fullnustu í stofnfjárbréfum og arði af þeim. Íslandsbanka var gert að greiða 2 milljónir í málskostnað.

Stofnfjárbréf fyrrum stofnfjáreigenda Byr eru verðlaus í dag.