Ekki er nægilega ljóst hverjar sakagiftir eru í ákæru sérstaks saksóknara á hendur Magnúsi Guðmundssyni, að mati lögmanns hans. Magnús er ásamt Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni og Ólafi Ólafssyni ákærður fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í tengslum við sölu á 5% hlut í Kaupþingi til fjárfestisins Al Thanis seint í september árið 2008, nokkrum dögum áður en bankinn fór í þrot.

Magnús, sem var bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg fram á haustið 2008, mætti við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og situr þar aftan við lögmann sinn og lögmenn annarra sem sérstakur saksóknari ákærði í Al Thani-málinu svokallaða. Þeir Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarsson sitja ekki með lögmönnum sínum heldur í fremstu sætum fyrir gesti hægra megin í dómssalnum. Þeir sitja ekki hlið við hlið.

Lögmaður Magnúsar sagði við fyrirtöku málsins m.a. lánveitingu banka til félags ekki refsiverða eina og sér. Hann reifaði málið og sagði lánið sem Kaupþing hafi veitt félagi Al Thani hafa verið peningamarkaðslán sem ekki hafi notið samþykkis lánanefndar og skort tryggingar.

Lögmaðurinn sagði ekki skýrt hvernig Magnús tengist lánveitingunni á sínum tíma með beinum hætti. Hann benti á að Magnús hafi samkvæmt ákærunni átt þátt í samningaviðræðum um lánveitinguna, útfærslu viðskiptanna og ásamt Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings, fyrirskipað starfsmönnum bankans að greiða út 50 milljóna dala lán til félagsins Brooks. Lögmaður Magnúsar sagði samningaviðræður og útfærslu viðskipta ekki refsiverð athæfi ein og sér. Á móti sé á reiki hvort Al Thani hafi verið veitt lán 18. eða 19. september árið 2008.

„Það vantar að útlista hvernig hlutdeildarverknaðurinn tengist aðalverknaðinum,“ sagði lögmaðurinn. „Framsetningin er afar villandi, ef ekki beinlínis röng,“ sagði hann.