Verð afleiða sem notuð eru til að verja gegn gjaldmiðlaáhættu eru farin að brjóta reglur hagfræðinnar. Regluverk fjármálamarkaða á sinn þátt í því að á markaðnum eru nú viðvarandi tækifæri til högnunar, en það á ekki að vera hægt samkvæmt lögmálum hagfræðinnar. Högnun er þegar aðili hagnast án áhættu.

Hyun Song Shin, aðalhagfræðingur Alþjóðagreiðslubankans, sagði í ræðu á miðvikudaginn að raunhagkerfið væri farið að sveiflast með hreyfingum alþjóðlegra fjármálamarkaða, í staðinn fyrir að sambandi væri öfugt.

Shin vitnaði til nýlegra rannsókna hagfræðinganna Xavier Gabaix og Matteo Maggiori, sem hafa þróað kenningu um það hvernig gengi gjaldmiðla myndast við aðstæður þar sem fjármagnsstraumar eru háðir takmörkunum vegna reglna um efnahagsreikninga banka. Kenning þeirra útskýrir hvers vegna reglan um varið vaxtajafnvægi (e. covered interest parity) virðist ekki lengur vera í gildi, en hún var samþykkt nánast sem lögmál fyrir fjármálakreppuna.

„Ég sagði nemendum mínum að varið vaxtajafnvægi sé eina sambandið sem hægt væri að treysta á í heimi alþjóðafjármála,“sagði Shin í ræðu sinni. „Ég veit betur núna. Kennslubækurnar segja enn að varið vaxtajafnvægi haldi, en það er ekki lengur satt.“

Frétt Bloomberg.