Þrjár stærstu lögmannsstofur landsins, þær Logos, LEX og BBA Legal, högnuðust um rúmlega 1.050 milljónir króna eftir skatta á síðasta ári eftir því sem Morgunblaðið greinir frá í morgun.

Logos hagnaðist langmest allra lögmannsstofa og nam hagnaður fyrirtækisins 718 milljónum króna á árinu 2013, en minnkaði þó á milli ára um 200 milljónir króna. Velta félagsins dróst einnig saman um 350 milljónir króna. Tekjur Logos námu 2.435 milljónum en tæplega fjórðungur af heildartekjum lögmannsstofunnar kemur frá starfsemi hennar í London.

Tekjur BBA Legal minnkuðu nokkuð á síðasta ári en félagið skilaði þó hagnaði upp á 134 milljónir króna. Á árunum 2010 og 2011 var hagnaður stofunnar yfir 250 milljónum króna.

Hagnaður LEX breytist lítið á milli ára og nam hann 204 milljónum króna á síðasta ári. Er það í samræmi við afkomu félagsins árin 2011 og 2012.