Um helmingur af 50 stærstu lögmannsstofum Bandaríkjanna eru talin hafa ofmetið hagnað ársins 2010, samkvæmt niðurstöðum úttektar sem gerð var innan Citibank. Wall Street Journal greinir frá þessu en bankinn vildi ekki staðfesta niðurstöðurnar.

Niðurstöðum úttektarinnar ber ekki saman við lista tímaritsins American Lawyer frá því í maí. Þá var birtur listi yfir þær lögmannsstofur sem græddu mest á hvern eiganda. Um 22% af efstu 50 stofunum ofmátu hagnað síðasta árs um meira en 20%. Til viðbótar mátu 16% lögmannsstofanna hagnað á hvern eiganda 10-20% of mikinn.

Í frétt WSJ er haft eftir prófessor við Harvard háskóla að erfitt geti verið að meta hagnað með þessum hætti, þar sem fjöldi eiganda geti breyst.

Hagur lögmannsstéttarinnar í Bandaríkjunum hefur vænkast nokkuð að undanförnu, og jókst hagnaður um 8,4% milli áranna 2009 og 2010, samkvæmt tölum American Laqyer tímaritsins. Ný rannsókn Citibank gæti þó leitt í ljós að batinn sé ekki jafn mikill og talið hefur verið.