Hæstiréttur staðfesti í dag 12 daga gæsluvarðhald yfir Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og sjö daga gæsluvarðhald yfir Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg.

Dómurinn klofnaði í afstöðu sinni. Tveir dómarar staðfestu úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur en einn, Jón Steinar Gunnlaugsson, hafnaði kröfu embættis sérstaks saksóknara um gæsluvarðhald.

Hörður Felix Harðarson hrl., lögmaður Hreiðars Más, sagðist í samtali við Viðskiptablaðið nú í kvöld ekki vilja tjá sig um dóminn að öðru leyti en því að niðurstaðan hefði komið á óvart og væri mikil vonbrigði. Hann sagðist ekki hafa séð dóm Hæstaréttar í málinu og vildi því ekki tjá sig efnislega um málið að svo stöddu.

Hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir dæmdu í málinu.

Hreiðar Már og Magnús eru grunaðir um margvísleg brot á lögum, m.a. er varða markaðsmisnotkun, skjalafals og auðgunarbrot. Rannsókn málsins stendur enn yfir en Hreiðar Már og Magnús eru í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Litla-Hrauni.

Dómur Hæstaréttar verður ekki birtur opinberlega að kröfu ákæruvaldsins, eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu fyrr í dag.