Gísli Guðni Hall, lögmaður Saga Capital Fjárfestingarbanka, segir að verði úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í máli bankans gegn Insolidum ehf. staðfestur í Hæstarétti muni það gera fjármálastofnunum erfiðara fyrir um að ganga að veði í einkahlutafélagi. Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Insolidum ehf., segir fátítt að veðköll séu vegna veða í óskráðum félögum eins og eigi við um Insolidum í þessu máli. Veðköll eigi sér oftast stað vegna veða í félögum skráðum á markaði. Að því leyti muni úrskurðurinn hafa takmörkuð áhrif.

Umræddur úrskurður var, eins og kunnugt er, kveðinn upp fyrir helgi. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þar kröfu Saga Capital um að bankinn verði skráður eigandi allra hluta í Insolidum og að honum verði fengin umráð hlutaskrárinnar. Félagið er í eigu Daggar Pálsdóttur, lögmanns og varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, og sonar hennar. Í úrskurðinum er talið að ekki sé hægt með beinni aðfarargerð að gera fyrrnefnda breytingu á hlutaskrá. Úrskurðurinn verður kærður til Hæstaréttar.

Aðdraganda málsins má rekja til þess að Insolidum ehf. keypti í júlí í fyrra stofnfjárbréf í Spron fyrir um 560 milljónir og með láni frá Saga Capital. Lánið var tryggt með veði í bréfunum sjálfum og öðrum eignum Insolidum. Gengi hlutabréfa í Spron lækkaði talsvert eftir að fyrirtækið var skráð í Kauphöll Íslands á haustdögum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta sótt um hann hér .