Flestir lögmenn sem hafa skoðað tillögur að lyklafrumvarpi ríkisstjórnarinnar telja mjög erfitt að láta frumvarpið virka afturvirkt, að sögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Hún sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að nokkrar útfærslur á svokölluðu lyklafrumvarpi hafa verið skoðaðar. Lokaniðurstaða liggi ekki fyrir en tillögur sem innanríkisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti hafi unnið að verða skilað til ráðherranefndar um skuldamál heimilanna í næstu eða þarnæstu viku.

Það var Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem benti á það í fyrirspurnartímanum að nefnd á vegum fyrri ríkisstjórnar hafi fengið til fundar við sig Sigurð Líndal, prófessor emeritus og einn af virtustu lögfræðingum landsins, hafa skoðað hugmyndir að lyklafrumvarpi. Hann hafi hins vegar talið engan vafa leika á að afturvirkni standist ekki stjórnarskrá. Hún spurði Hönnu Birnu m.a. að því hvað felist í nýju lyklafrumvarpi og hvenær það verði lagt fram á Alþingi.

Hann Birna tók undir að lögmenn hafi skoðað nýjar útfærslur að lyklafrumvarpi. Þeir hafi tekið undir með Sigurði. Hún sagði ráðherranefndina eiga eftir að fjalla um málið og verði frumvarpið lagt fyrir Alþingi síðar.

Sigmundur Davíð sagði í stefnuræðu sinni á Alþingi í síðustu viku búast við því að lyklafrumvarpið verði lagt fram á haustþingi.

Þá sagði hagfræðingurinn Ásgeir Jónsson nýverið að ný lög um gjaldþrot einstaklinga og lyklafrumvarpið geta breytt vilja lánveitenda til að svokölluð Íslandslán, þ.e. verðtryggð húsnæðislán með föstum raunvöxtum til allt að 40 ára með jafngreiðsluskilmálum. Slík lán sagði hann skapa hvata fyrir of mikla skuldsetningu. Þetta kerfi sagði hann vera að hverfa á braut þar sem lánveitendur muni ekki vilja lána slík lán lengur.