Hæstaréttarlögmennirnir Gestur Jónsson, Hörður Felix Harðarson og Kristín Edwald rita grein í Fréttablaðið í dag þar sem þau fara hörðum orðum um dómaframkvæmd Hæstaréttar varðandi símhlustanir í málum tengdum falli bankakerfisins. Segja þau að af dómi hæstaréttar frá 4. febrúar síðastliðnum megi draga þá ályktun að tilgangurinn helgi meðalið við rannsókn þessara mála.

Segja þau að við meðferð nokkurra sakamála á hendur fyrrum stjórnendum fjármálafyrirtækja síðustu misseri hafi ákæruvaldið notast talsvert við upptökur af samtölum sem aflað var með hlustunum. Í mörgum tilvikum, líklega flestum, sé um að ræða samtöl sem umræddir einstaklingar áttu við fyrrum samstarfsfélaga, vini eða ættingja stuttu eftir að þeir höfðu verið leiddir til skýrslugjafar hjá embætti sérstaks saksóknara með réttarstöðu sakbornings. Við þá skýrslugjöf var þessum einstaklingum óskylt lögum samkvæmt að svara spurningum um ætlaða refsiverða hegðun.

Tilviljun réði ekki tímasetningu

Segja höfundar að tilviljun hafi augljóslega ekki ráðið tímasetningu hlustana í þessum málum. „Markmiðið með hlustunum við þessar kringumstæður, mörgum árum eftir atvik málsins, var að hirða afrakstur af þeim áhyggjum sem yfirheyrsla hjá lögreglu veldur. Með öðrum orðum var þess freistað að kanna hvort umræddir einstaklingar myndu í samtölum við sína nánustu og ráðgjafa varpa sök á sig sjálfa eða aðra. Með þessari framkvæmd voru grundvallarréttindi þessara einstaklinga virt að vettugi.“

Þau segja að málsvarnir sem reistar hafa verið á ætluðum réttarbrotum embættis sérstaks saksóknara hafa takmarkaðan hljómgrunn fengið hjá dómstólum fram til þessa. „Í dómi Hæstaréttar frá 4. febrúar sl. bar þó svo við að sú framkvæmd embættis sérstaks saksóknara sem hér hefur verið lýst var talin brjóta gegn 2. mgr. 64. gr. sakamálalaga, 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Um afleiðingar þessara réttarbrota segir í forsendum dómsins: „Því verður horft framhjá upptökunum við úrlausn málsins“. Um þá framkvæmd embættis sérstaks saksóknara að hlusta á samtöl ákærðu við verjendur á meðan á rannsókn málsins stóð var að sama skapi vísað til þess að þær upptökur hefðu ekki verið lagðar fram í málinu, enda væri lagt bann við því í sakamálalögum.“

Mikið umhugsunarefni

Þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi horft framhjá upptökunum við úrlausn málsins segja greinarhöfundar engu að síður að niðurstaða Hæstaréttar hljóti að vera mikið umhugsunarefni. „Með þessum dómi hefur verið staðfest að brotið var gegn rétti umræddra einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar.“ Þagnarréttur sakaðra manna stafi af því að í réttarríkjum heimsins hafi menn komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að sekt manns þurfi að sanna með öðrum hætti en þeim að sakborningurinn sjálfur verði krafinn sagna.

„Af dómi Hæstaréttar virðist mega draga þá ályktun að tilgangurinn helgi meðalið við rannsókn þessara mála. Ákæruvaldið rauf trúnað sem samfélag réttarríkja hefur sammælst um að sé undir öllum kringumstæðum heilagur. Enginn getur sagt með vissu hvaða áhrif þetta hafði á rannsókn málsins og ákvörðun um útgáfu ákæru. Freistingin fyrir lögreglu hlýtur að vera mikil hér eftir sem hingað til að komast í þessar trúnaðarupplýsingar við rannsókn mála. Þess eins verður að gæta að leggja ekki fram afrakstur slíkra réttarbrota sem sönnunargagn í sakamáli.“