Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall, sem sögðu sig frá Al-Thani málinu svokallaða á mánudag, standa við fyrri fullyrðingar um að þeir hafi ekki fengið lögmæltan frest til að skila greinargerðum til Hæstaréttar í kærumálum sem Hæstiréttur dæmdi í fimmtudaginn fjórða apríl síðastliðinn. Klukkan 10:25 þann fjórða apríl hafi þeir fengið tilkynningu um að kærugögn hafi verið send Hæstarétti. Dómur í málinu hafi svo fallið tveimur tímum og 43 mínútum síðar. Þeir líta svo á að þeir hafi átt að hafa sólarhring til að skila greinargerð til Hæstaréttar.

Í yfirlýsingu, sem send var fjölmiðlum í dag, segja þeir að tilefni sendingar hennar séu ummæli skrifstofustjóra Hæstaréttar í fréttum RÚV í gær. Þar sagði hann að lögmennirnir hefðu fengið þann frest til að skila greinargerðum sem þeir hafi átt að fá.

Í yfirlýsingu lögmannanna segir að til þess að enginn þurfi að velkjast í vafa um hvernig samskipti þeirra við Héraðsdóm Reykjavíkur voru láti þeir fylgja með tölvupóstsamskipti sín við dóminn. Þar er m.a. að finna tölvupóst frá Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, sem dagsettur er 3. apríl klukkan 13:13, en þar segir: „Sæll, Almar. Þetta er komið í vinnslu. Fer í Hr. á morgun, líklega.“ Klukkan 10:25 á fimmtudeginum 4. apríl er svo tölvupósturinn umræddi sem sendur er frá Héraðsdómi: „Sæll Almar. Kærugögn í S-127/2012 fóru frá okkur kl. 10:25 frá okkur til Hæstaréttar.“ Málsnúmerið vísar til kærunnar sem varðaði frestun á aðalmeðferð málsins, sem héraðsdómari hafði hafnað.