Lítið flökt í verði gjaldmiðla er alla jafnan fagnaðarefni í hugum flestra í viðskiptalífinu. Fyrir miðlara á fjármálamörkuðum sem hafa lífviðurværi af markaðshreyfingum getur dúnalogn hins vegar verið áhyggjuefni. Financial Times greinir frá því að nú fari um marga miðlara vegna óvenju lítillar veltu og hreyfinga á gjaldeyrismarkaði enda muni margir vel eftir logninu á undan fjármálastorminum árið 2008.

Svokölluð MUFG FX volatility index er vísitala sem mælir flökt í verði helstu gjaldmiðla heims og samkvæmt henni hefur ekki ríkt jafnmikill stöðugleiki á markaðinum síðan 2014. Stöðugleikinn hefur hins vegar ekki varað jafnlengi síðan 2006 og 2007 þegar kyrrð og ró einkenndi markaðinn í 10 mánuði áður en fjármálakreppan skall á.

Financial Times hefur eftir miðlara hjá BMO Capital Markets að óvenjulítið flökt hafi einkennt gjaldeyrismarkaði það sem af er ári. Flöktið hafi minnkað ennfrekar þegar að Seðlabanki Bandaríkjanna vatt kvæði sínu í kross síðastliðinn mars, hélt vöxtum óbreyttum og hætti við fyrirætlaðar vaxtahækkanir. Þessi breytta afstaða ásamt vaxandi áhyggjum af frekari kólnun í heimshagkerfinu hafi valdið því að seðlabankar víða um heim hafa fylgt í kjölfar þess bandaríska og boðað vaxtalækkanir á árinu.

Miðlari á gjaldeyrisborði Deutsche bank segir að venjulega leiti fjármagn til hávaxtarsvæða þegar stöðugleiki ríki á gjaldeyrismarkaði. Nú hiki fjárfestar hins vegar við að taka stöður í hávaxtamyntum eftir óvænt gengisfall tyrknesku lírunnar og suður afríska randsins. Hann segir litlar hreyfingar og varfærni eigi ekki að koma óvart í ljósi þess hagsveiflan hafi ekki verið jafnlengi að ná sér aftur á strik síðan á nítjándu öldinni.