Lögmannsstofan Logos ber höfuð og herðar yfir önnur samlags- og sameignarfélög á sínu sviði hvað hagnað varðar í fyrra samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins.

Áætlaður hagnaður stofunnar nemur 473 milljónum króna sem er meira en næstu fjögur sæti listans sín á milli og meira en allur listinn þar fyrir neðan samanlagður, en úttektin nær til 30 hagnaðarmestu lögmannsstofanna sem undir áðurnefnd félagaform falla.

Næst á listanum koma stofurnar Landslög með 206 milljóna hagnað og Juris með 122 milljónir. Þrír raunverulegir eigendur eru skráðir fyrir Logos, Landslögum og Juris hjá fyrirtækjaskrá og því er stjórnarformaður tilgreindur í eigendadálknum í listanum hér fyrir neðan þar sem enginn fer með ráðandi eignarhlut svo vitað sé.

Hjá Logos og Landslögum kemur eignarhlutdeild ekki fram, en hjá Juris eiga þeir þrír sem fram koma aðeins samanlagt tæpan helming félagsins. Þar er því um fleiri eigendur að ræða, og þykja má líklegt að því sé eins farið hjá hinum tveimur, enda alþekkt að slíkar stofur séu í sameiginlegri eigu efsta lags starfsmanna.

Úttektin sem birtist í Viðskiptablaðinu á fimmtudag byggir á álögðum tekjuskatti og tryggingagjaldi samkvæmt álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birti í þarsíðustu viku. Samlags- og sameignarfélög skila alla jafna ekki inn ársreikningi til fyrirtækjaskrár líkt og raunin er til að mynda með hlutafélög.

Taka skal fram að í úttekt Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum – sem draga má frá skattstofni – né lægra skatthlutfalli tekna af arðgreiðslum, enda liggja þær upplýsingar ekki fyrir.