Ríkiskaup, fyrir hönd ríkislögreglustjóra, hefur gert samning við Brimborg um kaup á sex sérútbúnum Volvo V70 D4 Drive-E lögreglubílum. Kaupin eru gerð í kjölfar útboðs. Bílarnir verða í notkun hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Brimborg.

Volvo lögreglubílarnir eru sérútbúnir að því leyti að undirvagninn, hemlakerfið og sæti bílanna eru sérstaklega styrkt til að þola mikið álag. Þá fylgir bílunum ýmis annar aukabúnaður sem nauðsynlegur er lögreglubílum.

Í tilkynningu er haft eftir Agli Jóhannssyni, forstjóra Brimborgar, að þetta sé í fyrsta skiptið sem lögreglan á Íslandi fær afhenta sérútbúna lögreglubíla beint frá bílaverksmiðju. Umbreytingarferlið sem bílarnir hafa farið í gegnum tryggi að þeir þoli betur gríðarlegt álag, m.a. í forgangsakstri.