„Við minnum fólk auðvitað á að læsa gluggum og hurðum. Og láta líta út eins og einhver sé heima með því að hafa kveikt á útvarpinu eða ljósum,“ segir  Rannveig Þórisdóttir, deildarstjóri upplýsinga- og áætlanadeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Nú þegar margir eru á leið í frí um páskana þarf fólk að huga að því að ganga vel frá heimilum sínum. Rannveig segir nágrannavörsluna skipta miklu máli: „Við höfum mælt með því að fólk fái nágranna til að hafa auga með íbúðinni eða húsinu og taka til dæmis fram að það sé ekki að flytja sjái nágrannarnir einhvern bera húsgögnin út. Síðan er hægt að bjóða nágrönnum upp á að nýta bílastæði og jafnvel nota ruslatunnurnar líka,“ segir Rannveig.

Rannveig segir fólk orðið meðvitaðra um að auglýsa ekki á Facebook að fjölskyldan sé á leið til Kanarí en það gleymi kannski unglingunum sem eru með samskiptaforritið Instagram í símanum: „Unglingurinn á heimilinu birtir þá jafnvel myndir af allri fjölskyldunni í útlöndum og er með mörg hundruð manns sem fylgjast með honum á Instgram og jafnvel fólk sem hann þekkir ekki vel.“

Rannveig tekur þó fram að tölur vegna innbrota beri vott um að við búum í góðu samfélagi: „Innbrotum hefur snarfækkað. Frá 2007 til 2010 fjölgaði innbrotum mjög og var nánast um farald að ræða. En með aukinni meðvitund fólks um öryggismál þegar kemur að heimilunum og aukinni nágrannavörslu þá hefur þeim fækkað mjög mikið síðustu þrjú árin.“

Rannveig segir að skipulag innan lögreglunnar hafi líka skipt máli bæði hvað varðar viðbrögð við þeim sem eru ítrekað að brjóta af sér og hvað varðar nálgun í löggæslu. Þannig var borginn skipt niður í fimm svæði árið 2009 með eina stöð á hverju svæði. Þar með jókst þekking lögreglunnar á hverju svæði fyrir sig og auðveldara var fyrir hana að ráðast gegn innbrotum á hverju svæði fyrir sig.

En hvaða hverfi skyldi vera verst þegar kemur að innbrotum? „Það er miðborgin. Hún er með langhæstu brotatíðnina þegar kemur að innbrotum. Þar er um að kenna skemmtanahaldi og innbrotum sem tengjast því eins og innbrot í bíla og meira í þeim dúr. Þegar kemur að íbúðarhverfum sjáum við að innbrot eru oft algeng í hverfum sem eru í byggingu. Það er frekar brotist inn í hálfkláraðar byggingar þar sem eru dýr verkfæri,“ segir Rannveig. Hún hvetur fólk að lokum að passa að hafa dýra hluti ekki sýnilega: „Ekki hafa ipadinn sýnilegan úti í glugga eða á eldhúsborði.“