„Börnin eru ennþá í hverfinu þó skólar séu komnir í sumarfrí,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar hjá lögreglunni í Reykjavík.

Guðbrandur minnir ökumenn á að börnin eru á leikjanámskeiðum við skólana eða allan daginn að leika sér úti við götur í íbúðarhverfum: „Inni í íbúðarhverfum er þrjátíu kílómetra hámarkshraði og það ber ávallt að virða hann. Svæðisstöðvar lögreglunnar fylgjast með sínum hverfum og síðan förum við líka inn í íbúðarhverfin, sama hvort það er á skólatímum eða ekki og höldum uppi hefðbundnu eftirliti.“

Viðurlögin við því að keyra á 50 kílómetra hraða í götu með 30 kílómetra hámarkshraða er 15 þúsund króna sekt. Sú sekt hækkar upp í 20 þúsund sé keyrt á 51-55 kílómetra hraða við sömu götu og sé keyrt á 60 kílómetra hraða þá hækkar sektin í 45 þúsund krónur og ökumaður fær 3 mánaða ökuleyfasviptingu.