Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tiltekinn starfsmann innanríkisráðuneytisins grunaðan um að hafa lekið upplýsingum Tony Omos hælisleitenda til tveggja fjölmiðla. Lögreglan kveðst hafa upplýsingar um það að þessi tiltekni starfsmaður hafi átt símtöl við blaðamann á 365 miðlum áður en frétt birtist í Fréttablaðinu sem byggði á minnisblaðinu sem lekið var. Einnig að sami starfsmaður hafi átt samtal við blaðamann mbl.is áður en frétt sem byggði á sama minnisblaði var birt á mbl.is.

Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar vegna kröfu lögreglunnar um að fréttastjóri mbl.is upplýsi um það hver hafi skrifað fréttir um hælisleitandann. Einnig vill lögreglan upplýsingar um það með hvaða hætti netmiðillinn hafi komist yfir minnisblaðið og frá hverjum það hafi borist. Í dómnum segir jafnframt að það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lögregla hafi í rannsókn sinni leitað allra þeirra leiða sem færar séu til þess að upplýsa mál þetta.

Fréttastjórinn hefur neitað að svara þessum spurningum og borið fyrir sig ákvæði í lögum um meðferð sakamála. Í umræddu ákvæði er kveðið á um að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um hver sé höfundur eða heimildarmaður að grein eða frásögn sem hefur birst án þess að hann væri nafngreindur, ef vitnið ber ábyrgð að lögum á efni sem birtist opinberlega eða það hefur öðlast vitneskju um höfund eða heimildarmann í starfi hjá ábyrgðarmanni.

Hæstiréttur hafnaði kröfunni um að fréttastjórinn upplýsti lögregluna um ofangreind atriði.