„Ég sat í makindum á Ölver í gær með kjúklingavængi að horfa á Super Bowl leikinn þegar lögreglan kom inn og rak alla út, þar sem staðurinn mátti ekki vera opinn eftir kl. 1:00.“ Þetta segir Ingvar Smári Birgisson, formaður Heimdallar, í stöðuuppfærslu á Fasbók .

Þar vísar hann til þess hvernig gestir Ölvers í Reykjavík þurftu að finna sér nýjan stað til þess að horfa á Super Bowl-leikinn, sem fram fór í nótt, eftir að lögregla leysti upp samkomuna þar sem staðurinn hafði ekki sótt um sérstakt leyfi til hennar. Var leikurinn hálfnaður þegar lögreglan mætti á svæðið.

Ingvar Smári er ekki sáttur við þessi vinnubrögð og segir að á staðnum hafi setið hópur fólks að njóta íþróttaleiks án nokkurra vandræða. Hins vegar hafi allir verið reknir út vegna reglna um hvenær fólk megi hittast á ákveðnum stöðum.

„Í frjálsum samfélögum á fólk að geta drukkið bjór, borðað kjúklingavængi og horft á íþróttaleiki saman,“ segir Ingvar Smári og bætir við að fólki hafi verið vísað af staðnum þrátt fyrir að hann hafi hætt að selja áfengi kl. 01.