Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hyggst kaupa drón til að nota við lögreglustörf. „Það hefur ekki orðið af því en verður gert um leið og peningar verða til,“ segir Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri.

Hörður segir að til að byrja með verði drón líklegast notuð við myndatökur á vettvangi utandyra. „Í okkar tilvikum tengist notkun dróna notkun myndavéla og það þarf ekki sérstakt leyfi frekar en að nota þrífót,“ segir hann. „Kollegar okkar í Evrópu eru þegar farnir að nota drón í því skyni, svo sem við slysarannsóknir og á öðrum stórum vettvangi,“ bætir hann við.

Mikil framþróun hefur orðið í tækni með drón og ómönnuð loftför. Upphaflega höfðu einungis herir færi á notkun þeirra og voru þau þá helst notuð til njósna á óvinaþjóðum. Í seinni tíð hafa þau svo verið notuð til loftárása, en slík árásardrón eru bæði dýr og tæknilega fullkomin. Með tækniþróun hefur framleiðsla dróna orðið ódýrari og því hefur notkun þeirra orðið almennari. Nú er svo komið að einföld drón bjóðast almenningi til sölu og útséð er að lögregluyfirvöld muni taka þau í sína notkun hér á landi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.