Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Félags fjárfesta, er líklega einn af fáum mönnum sem sá orðspor sitt batna til muna við bankahrunið 2008. Fram að þeim tíma hafði hann áunnið sér það orð að vera erfiður fundargestur á aðalfundum fyrirtækja, þar sem hann var gjarn á að spyrja erfiðra spurninga og þar með lengja biðina eftir snittum og hvítvíni. Oftar en einu sinni var hann sagður vera kverúlant.

Þegar í ljós kom að íslenska fjármálakerfið stóð í raun veikari fótum en margir héldu – brauðfótum jafnvel – breyttist afstaða fólks til Vilhjálms og er það til marks um þessa breytingu að árið 2009 var hann valinn viðskiptafræðingur ársins af Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Í umsögn dómnefndar segir að Vilhjálmur „hafi verið löggan á hlutabréfamarkaðnum þegar kemur að stjórnunarháttum í fyrirtækjum. Þegar partíið stóð sem hæst fannst mörgum partíljónunum hann vera gleðispillirinn sem eyðilagði partístemninguna. Nú þegar timburmennirnir hafa tekið völdin eru partígestirnir farnir að sjá Vilhjálm í öðru og sanngjarnara ljósi.“