Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, gerir upp árin fyrir og eftir fall bankanna í bókinni Uppgjör bankamanns.

Í Viðskiptablaðinu er birt brot úr bókinni og geta áskrifendur þegar greinina í heild hér. Á meðal þess sem kemur fram er þetta:

Ég var kominn í ágætt far þegar leið á haustið 2010 við að vinna, lesa mér til gagns og hlúa eftir bestu getu að líkamlegri og andlegri heilsu minni. Ég fann að álagið yfir málaferlunum og þess sem koma skyldi reyndi verulega á andlegu hliðina og þar þyngdist róðurinn þegar dagarnir tóku að styttast.

Eftir uppákomu í nóvember, þar sem ég var ekki sáttur við sjálfan mig, ákvað ég að fara af fullum hug inn í AA-samtökin til að sækja mér andlegan styrk og viðurkenna endanlega vanmát minn fyrir áfengi. Ég mætti á fyrsta fund minn sunnudaginn 12. nóvember í Lundúnum eftir að hafa fengið leiðsögn hjá góðum mönnum. Ég fann hversu þessi fundur gerði mér gott.

Morguninn 16. nóvember hafði ég verið að hlaupa í Regent‘s Park þegar ég sá að Ágústa hafði hringt þrisvar sinnum. Þennan morgun hafði Ágústa (Innsk. Ágústa Margrét Ólafsdóttir eiginkona Lárusar) rétt náð að komast heim úr vinnu og kalla til lögmenn frá Mörkinni lögmannsstofu og föður sinn áður en hópur lögreglumanna, með Fjölni Sæmundsson, nú formann stjórnar Landssambands lögreglumanna, fremstan í flokki sem ætlaði að brjóta upp útihurðina á heimili okkar í Blönduhlíð til að framkvæma húsleit. Ágústa sagði mér hvernig lögreglumennirnir rótuðu í öllu á heimili okkar.

Tilgangurinn var augljós

Ég komst í töluvert uppnám við þessar fréttir og hugsaði með mér: Hvað ætli þeir telji sig geta fundið heima hjá mér meira en tveimur árum eftir að Glitnir féll? Ég hafði ekki mátt taka nein gögn úr bankanum eftir að ég lét af störfum þar. Heima hjá mér var ekkert að finna, enda var ekkert tekið í húsleitinni. Líklega hafði það hvort sem er aldrei staðið til.

Tilgangurinn með aðgerðinni var augljós. Það var verið að sýna stjórnvöldum og almenningi að bankamennirnir yrðu ekki teknir neinum vettlingatökum. Jafnframt var með þessu settur á okkur mikill þrýstingur. Ég fann hvernig reiðin kraumaði í mér yfir þessari valdníðslu en Ágústa sýndi mikinn styrk og rósemi. Mér fannst þetta vera ljótur leikur hjá þessu embætti og aðfarir sem fjölskylda mín átti engan veginn skilið.

Við Ágústa vorum ekki ein um að fá lögreglumenn inn á heimili okkar. Þetta var stór fjölmiðladagur hjá sérstökum saksóknara því að alls voru framkvæmdar 16 húsleitir víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og utan þess. Sjötíu starfsmenn lögreglu frá sjö embættum framkvæmdu húsleitirnar og voru níu handteknir og færðir til skýrslutöku.

Íslandsmetin féllu hjá sérstökum

Fjölmiðlar sögðu að aðgerðin hefði verið ein sú umfangsmesta sem embættið hefði ráðist í og reist væri á afar umfangsmikilli rannsókn sérstaks saksóknara á lánveitingum Glitnis og næmi fjárhæð þeirra viðskipta um 70 milljörðum króna.

Nú hafði öllu verið á rönguna snúið. Fyrir hrun birtu fjölmiðlar fréttir úr viðskiptalífinu þar sem yfirtökurnar voru þær stærstu í Íslandssögunni og allt var svo mikilfenglegt og umfangsmikið.

Nú hjó ég eftir því að Ólafur Þór Hauksson var kominn í sömu stellingar og viðskiptahetjurnar áður. Nú var hann að framkvæma stærstu handtökur Íslandssögunnar og stunda umfangsmestu rannsóknirnar, setja Íslandsmet í húsleitum og þar fram eftir götunum. Ég fékk ekki betur séð en að hann hefði brugðist við öllum meðbyrnum og athygli fjölmiðla á svipaðan hátt og bankamennirnir nokkrum árum áður og fundið aðeins til sín.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag og geta áskrifendur lesið alla umfjöllunina hér.