Árið 2014 komu upp meiriháttar skekkjur í árshlutauppgjöri Tesco, en fyrirtækið misreiknaði sig um allt að 326 milljónir punda. Þegar upp komst að hagnaður fyrirtækisins hafði stórlega ofmetinn, féllu bréfin skart.

Nú hafa 125 fjárfestingarsjóðir tekið sig saman til þess að lögsækja Tesco. Bentham Europe leiðir herferðina gegn félaginu, en sjóðirnir fara fram á 100 milljónir punda í skaðabætur.

Sjóðirnir segja félagið hafa villt fyrir fjárfestum og gerst brotlegt með því að færa fram rangar upplýsingar, jafnvel þótt að ásetningurinn hafi ekki verið sá að láta bækurnar líta betur út.

Einn af forstöðumönnum Bentham segir það vera rétt fjárfesta að geta treyst upplýsingunum sem fyrirtæki leggja fyrir. Hann segir marga sjóði hafa orðið fyrir verulegu tapi, en bréfin hafa fallið um nær 20% frá árinu 2014.

Fjármálaeftirlit Bretlands hefur nú þegar hafið ítarlegar rannsóknir á Tesco og stjórnendum fyrirtækisins.