Fyrir aðalfundi Kögunar lá tillaga til heimildar stjórnar til að hækka hlutafé félagsins. Þegar kom að því að bera tillöguna undir atkvæði kom Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans, í pontu og lagðist gegn tillögunni. Verður það að teljast ákaflega fátítt að slík tillaga fái þessa meðferð.

Í ræðu hans kom fram að þarna væri verið að auka heimild stjórnar um 40% frá því sem verið hefði en miðað við núverandi markaðsvirði væri þetta um 3 milljarðar króna. Sagðist Brynjólfur ekki styðja þessa tillögu.

Að því loknu kom Örn Karlsson, stjórnarformaður Kögunar, í ræðustól og sagði að þar sem tvo þriðju hluta atkvæða þyrfti til að samþykkja slíka tillögu væri ljóst að hún væri fallin vegna andstöðu Símans og Exista. Því dró hann tillöguna til baka. Í ræðu hans kom fram að tillagan hefði verið til að liðka til við kaupin á Hands ASA og vegna kaupanna á EJS ehf.