Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um leiðsögumenn. Með frumvarpinu er lagt til að starfsheitið leiðsögumaður ferðamanna verði lögverndað. Ráðið leggst gegn því að frumvarpið nái fram að ganga.

Í frumvarpinu kemur fram að markmið þess er að tryggja að þeir sem noti það starfsheiti hafi ákveðna lágmarksþekkingu og -færni til að tryggja fullnægjandi gæði ferðaþjónustu, öryggi ferðamanna og góða umgengni við náttúru landsins.

Í umsögn Viðskiptaráðs segir að þó lögverndun sé ávallt komið á í nafni neytendaverndar hafi hún jafnframt neikvæðar afleiðingar. Með því að skapa hindranir fyrir þá sem vilja hefja störf í atvinnugrein dregur lögverndun úr fjölda starfandi í viðkomandi grein. Afleiðingar þess eru minni samkeppni og hærri verð fyrir viðskiptavini en ella. Þá telur viðskiptaráð að lögverndun geti haft neikvæð áhrif á nýsköpun með opinberum reglum um ákveðna menntun eða aðferðir sem torvelda nýjar aðferðir eða lausnir.

Íslendingar eiga Norðurlandamet í lögverndun starfa og er leyfisskyldu beitt í meira mæli hérlendis en á öðrum Norðurlöndum.

Að mati Viðskiptaráðs ber lögverndun starfsgreina mörg einkenni sérhagsmunagæslu. Með lögverndun fá þeir sem fyrir eru í atvinnugrein minna aðhald frá nýjum aðilum. Með minni samkeppni geta þeir því hækkað verð til viðskiptavina án þess að þeir geti leitað annað.

Að lokum gagnrýnir ráðið að frumvarpið hafi verið unnið í samráði við Félag leiðsögumanna sem hafa unnið stöðugt að því að fá í lög lögverndun starfs og starfsheitis leiðsögumanna. Heppilegra hefði verið að líta til breiðari hagsmuna.