Sérfræðingar vestanhafs búast við miklum hagnaðarsamdrætti hjá fjárfestingabönkunum Goldman Sachs og Morgan Stanley. Jafnframt má búast við fyrsta ársfjórðungslega tapi Lehman Brothers.

Lehman Brothers tilkynntu í síðustu viku að ætlað tap á öðrum fjórðungi væri 2,8 milljarðar dollara, sem er 10 sinnum hærri tala en væntingar sérfræðinga stóðu til. Reuters greinir svo frá í dag.

Ásamt hraknandi efnahagsumhverfi telja sérfræðingar að gengis- og áhættuvarnir bankanna hafi ekki virkað sem skyldi. Samanlagðar afskriftir þeirra þriggja fjárfestingabanka sem hér eru nefndir á nafn eru taldar munu nema 9 milljörðum dollara á öðrum fjórðungi.

Gengi bréfa Lehman Brothers hefur lækkað um 61% á þessu ári. Morgan Stanley hefur lækkað um tæplega fjórðung á árinu og Goldman Sachs hefur lækkað um 17% á þessu ári.