Donald Trump hefur gefið út yfirlýsingu hvar hann segir að valdaskipti munu fara friðsamlega fram hinn 20. janúar næstkomandi. Þar með sé komið að lokum „glæstasta“ fyrsta kjörtímatímabils í bandarískri forsetasögu.

Hann byrjar þó yfirlýsinguna á því að árétta að hann sé algjörlega ósammála niðurstöðunni. Þá tekur hann fram að hann hafi ávallt sagst ætla að berjast fyrir því að aðeins lögleg atkvæði yrðu talin.

Lýkur hann yfirlýsingunni á því að segja að endalokin séu aðeins upphafið á baráttu þeirra fyrir því að gera Bandaríkin mikilfengleg á ný.

Trump hafi málað sig út í horn

Líkt og alkunna er réðust stuðningsmenn Trumps inn í Bandaríska þinghúsið í gær, hvar þingið hafði komið saman til að staðfesta úrslit forsetakosninganna. Fjórir einstaklingar létu lífið í óeirðunum og fjölmargir særðust, meðal annars lögreglumenn.

Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa fordæmt árásina á þingið og lýðræðið um leið auk viðbragða Trumps við óeirðunum, en hann sagðist meðal annars elska uppreisnarmennina og að þeir væru einstakir. Undanfarna mánuði hefur Trump haldið því fram að demókratar hafi „stolið“ kosningunum og þykja óeirðirnar vera bein afleiðing framgöngu hans eftir kosningar.

Nú er svo komið að fjöldi samflokksmanna Trumps hefur fordæmt hann og erlendir fréttamiðlar flytja fregnir af því að ríkisstjórnin hafi fundað óformlega um að koma honum frá völdum með því að virkja 25. viðauka stjórnarskrárinnar þar í landi.

Það má því deila um að komið sé að lokum „glæstasta“ fyrsta kjörtímabils í forsetasögunni, sem lýkur með alvarlegri atlögu að lýðræði Bandaríkjanna hvar hans eigin stuðningsmenn láta lífið og forsetinn virðist hafa málað sig út í horn í eigin flokki.