Endanleg lokun á vísisjóðnum Crowberry II var þann 8. janúar og fjárfesti Útflunings- og fjárfestingasjóður Danmerkur þá í sjóðnum fyrir um 1,2 milljarða íslenskra króna.

Fjárfesting danska sjóðsins kom Crowberry II yfir 90 milljóna evra markmiðið, eða um 14 milljarða íslenskra króna. Stofnendur Crowberry Capital eru þær Hekla Arnardóttir, Helga Valfells og Jenný Ruth Hrafnsdóttir.

Jenný Ruth nefnir að fyrsta lokun á Crowberry II hafi verið um mitt ár 2021. Þá hafi sjóðnum verið lokað í 11,5 milljörðum íslenskra króna. Gengið hafði verið út frá því að sjóðnum yrði lokað tólf mánuðum síðar, en þar sem danski sjóðurinn þurfi töluvert langan tíma til að meta fjárfestingarnar þá fékk Crowberry hálfs árs frest til að loka sjóðnum endanlega.

„Sá frestur rann út þann 8. janúar og lokuðum við sjóðnum þá í 14 milljörðum íslenskra króna,“ segir hún.

Uppgangur í danskri nýsköpun

Stofnendur Crowberry eru sammála um að lýsa megi Úflutnings- og fjárfestingasjóði Danmerkur sem eins konar blöndu af Rannís, Kríu og Nýsköpunarsjóði. Starfsmenn sjóðsins séu um 500 sem dragi upp ákveðna mynd af umfangi hans.

Í Danmörku sé mikill vöxtur og vistkerfi nýsköpunar sé í mikilli gerjun. Helga nefnir fyrirtækin Trustpilot og Vivino sem dæmi um fyrirtæki sem hafi sprottið upp úr jarðvegi nýsköpunar í Danmörku undanfarinn áratug. Fólk sem kom að uppgangi þeirra sé síðan farið í sína eigin vegferð við að stofna fyrirtæki núna.

„Það eru mörg tækifæri í Danmörku og stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á það undanfarið að skapa frjóan jarðveg fyrir nýsköpun í landinu. Við sjáum mikil tækifæri í Danmörku, en samkeppnin þar er ekki alveg jafn hörð og í Stokkhólmi,“ segir Helga.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu og geta áskrifendur lesið fréttina í heild sinni hér.