Hafnarstjórn Vesturbyggðar ákvað á fundi í síðustu viku að hætta að sinna móttöku og annarri þjónustu við strandferðaskipið Jaxlinn vegna vanskila útgerðar skipsins. Í frétt BB á Ísafirði kemur fram að skipið hefur haft viðkomu í höfnum sveitarfélagsins frá því á síðasta ári er sjóflutningar skipsins hófust milli höfuðborgarsvæðisins og Vestfjarða.

Á fundi hafnarstjórnar í febrúar var tekið fyrir erindi útgerðar skipsins, Sæskipa ehf, þar sem óskað var eftir lækkun eða niðurfellingu hafnargjalda. Stjórnin hafnaði erindinu en var tilbúin til þess að fallast á niðurfellingu allra áfallinna dráttarvaxta vegna skuldasöfnunar fyrirtækisins ef samið yrði um greiðslu fyrir lok marsmánaðar.

Á fundi hafnarstjórnar í síðustu viku var bókað að engin viðbrögð hefðu borist af hálfu Sæskipa og enn hefðu safnast upp skuldir. Í bókuninni kemur fram að skipið komi oft að næturlagi og felist í því töluverður kostnaður fyrir hafnarsjóð þar sem kalla þurfi út starfsmenn hafnarinnar til þess að þjónusta skipið. Því ákvað stjórnin eins og áður sagði að hætta þjónustu við skipið þar til skuldir hafa verið gerðar upp eða um þær samið. Í bókun hafnarstjórnar kemur fram að Jaxlinum sé þó áfram heimilt að leggjast að bryggju ?enda innheimt lögboðin gjöld samfara því?. Hafnarstjóra var falið að tilkynna útgerðinni þessa ákvörðun og ákveðið að skuld fyrirtækisins við hafnarsjóð verði send lögfræðingi til innheimtu, verði ekki um hana samið eða hún greidd fyrir 10. júní