Útlit er fyrir að embætti ríkisskattstjóra láti loka fjölda virðisaukaskatts númera til að loka fyrir og koma í veg fyrir skattsvik. Fram kom í Fréttablaðinu í dag að ríflega fjögur hundruð virðisaukaskattsnúmerum hafi verið lokað . Sigurður Jensson, sviðsstjóri eftirlitssviðs ríkisskattstjóra, segir í samtali við VB.is lokanirnar geta orðið talsvert fleiri enda geti undanskotum á virðisaukaskatti fylgt fleiri skattsvik sem eigi að fyrirbyggja. Þetta er einhver umfangsmesta aðgerð ríkisskattstjóra til þessa. Til samanburðar var nokkrum tugum virðisaukaskattsnúmera lokað í fyrra.

Aðgerð ríkisskattstjóra er í samræmi við lagaheimild sem embættið fékk í mars í fyrra en hún gerði ríkisskattstjóra kleift að bregðast hraðar við standi virðisaukaskattskyldir aðilar ekki undir þeim skyldum sem á þeim hvíla.

Sigurður segir að fyrir nokkrum árum hafi verið gert átak í því að loka virðisaukaskattsnúmerum aðila sem hafi fengið á sig áætlun skattstjóra í tvö ár eða lengur. Með nýju heimildinni var viðmiðið stytt verulega og ríkisskattstjóra heimilt að loka virðisaukaskattsnúmerum þeirra sem hafi fengið áætlun á sig í tvö tímabil.

„Við getum nú brugðist hraðar við standi menn ekki undir þeim skyldum sem á þeim hvíla,“ segir Sigurður og leggur áherslu á að virðisaukaskattskerfið grundvallist á trausti þess að þeir sem eru með virðisaukaskattsnúmer skili sínu til ríkisins með reglubundnum hætti enda skatturinn mikilvægur fyrir tekjuöflun ríkissjóðs.