Námurisinn BHP Billiton hefur brugðist við hríðfallandi olíuverði á heimsmarkaði með því að fækka um 40% sandsteinsolíuborpöllum sínum í Bandaríkjunum. Þeir eru nú 26 talsins, en verða orðnir 16 í júní. Þrátt fyrir þetta stefnir fyrirtækið ekki á að draga úr framleiðslu, heldur segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu að aukin framleiðni muni auka framleiðslu um 50% á árinu.

Olíuverð hefur fallið um ríflega helming frá því í sumar og verð á öðrum afurðum fyrirtækisins, járngrýti og kopar, hefur einnig lækkað mikið. Þrátt fyrir þetta hefur fyrirtækið heitið því að arðgreiðslur verði ekki skertar.