*

laugardagur, 29. janúar 2022
Erlent 25. janúar 2021 17:30

Loka Debenhams en kaupa nafnið

Um 12 þúsund manns missa vinnuna við það að Debenhams keðjurnar loka í kjölfar kaupa netverslunar á nafninu.

Ritstjórn
Debenhams verslanir voru til að mynda hér á landi á sínum tíma.
Axel Jón Fjeldsted

Netverslunin Boohoo hefur keypt Debenhams merkið og vefsíðuna fyrir andvirði 9,7 milljarða íslenskra króna. Ætla ekki að opna verslanir á ný. Tískunetverslunarfyrirtækið Boohoo hefur keypt Debenhams merkið ásamt vefsíðu félagsins fyrir 55 milljónir punda, eða sem samsvarar 9,7 milljörðum íslenskra króna, en félagið hyggst ekki reka verslanir fyrirtækisins áfram.

Þar með munum 12 þúsund manns missa vinnuna hjá þessari 242 ára gömlu keðju í Bretlandi, en hún hefur verið í greiðslustöðvun án þess að takist hafi að bjarga rekstrinum.

Breyttar kaupvenjur hafa haft mikil áhrif á fyrirtæki líkt og Debenhams, sem árið 2011 þegar fór á markað var metið á andvirði 1,6 milljarð breskra punda, eða sem myndi samsvara á núverandi gengi 283 milljörðum íslenskra króna. Boohoo sem var stofnað árið 2006 er nú þegar metið á 4,4 milljarða punda.

Önnur netverslun, Asos er á sama tíma komið í einkaviðræður um kaup á Topshop, Topman, Miss Selfridge og HIIT merkjunum úr þrotabúi fyrrum Arcadia veldis Philip Green. Þar gildir það sama að Asos hefur einungis áhuga á merkjunum ekki verslununum. Asos er metið á 5 milljarða breskra punda.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í desember rak keðjan hátt í 500 verslanir og var með um 13 þúsund starfsmenn áður en heimsfaraldur kórónuveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum veitti henni náðarhöggið.

Debenhamsverslanirnar voru 124 áður en þær byrjuðu að loka í desember, en fyrirtækið tilkynnti nýlega að sex af verslunum þess, þar á meðal flaggskipið í Oxford Stræti í London yrðu ekki opnaðar á ný. Áður hefur Boohoo keypt fjölda vörumerkja úr þrotabúum fyrirtækja sem hafa farið illa vegna breyttra neysluvenja en sú þróun tók kipp með tilkomu kórónuveirufaraldursins.

Meðal vörumerkja sem fyrirtækið hefur keypt eru Oasis, Coast, Karen Millen en í öllum tilvikum hefur félagið ekki keypt verslanirnar sjálfar með. Boohoo segir að Debenhams verði enduropnað á grunni Boohoo netverslunarinnar seinna á þessu ári, en þangað til verður vefsíðan rekin á sama grunni og verið hefur hingað til.

„Kaup okkar á Debenhams vörumerkinu er mikilvæg fyrir framtíðarskipulag okkar þar sem það markar stórt skref í þá átt að hraða áætlunum okkar um að verða leiðandi, ekki bara í tískuverslun á netinu, heldur einnig ýmsum öðrum geirum sem innihalda einnig snyrtivörur, íþróttir og búsáhaldavörur,“ hefur BBC eftir Mahmud Kamani stjórnarformanni Boohoo.

„Þetta er umbreytandi samningur fyrir okkar fyrirtæki, því hann leyfir okkar að grípa frábært tækifæri á sama tíma og netverslun heldur áfram að versla. Metnaður okkar er að byggja upp stærsta markað Bretlands.“

Stikkorð: Debenhams Arcadia Asos Boohoo