Íslenski lífeyrissjóðurinn hefur lokað í nokkra daga fyrir útgreiðslu úr sjóðnum og flutninga milli fjárfestingaleiða sjóðsins og annarra vörsluaðila.

Þetta kemur fram í tilkynningu sjóðsins á vef Landsbankans og er ástæðan sögð vegna þeirra „sérstöku aðstæðna sem nú eru á mörkuðum.“

Þá kemur fram að þar sem viðskipti í Kauphöll eru ekki leyfð er ekki hægt að reikna gengi fjárfestingaleiða.

„Nauðsynlegt er að grípa til þessara ráðstafanna til að gæta hagsmuna allra sjóðfélaga,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að unnið sé að því að fá rétta mynd af verðmæti eigna Íslenska lífeyrissjóðsins og grípa til þeirra ráðstafana sem tækar eru til að hámarka verðmæti þeirra. Óskað hefur verið eftir því að endurskoðandi sjóðsins aðstoði við að meta eignir sjóðsins.

„Lokunin er tímabundin og verður tilkynning send út um leið og opnað verður fyrir útgreiðslur og flutninga milli fjárfestingaleiða,“ segir jafnframt í tilkynningunni og að lokum eru sjóðsfélagar beðnir velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda þeim.