Vegna mikillar eftirspurnar eftir hlutabréfum í Føroya Banka hefur verið ákveðið að í dag, kl.15 að íslenskum tíma, verði lokað fyrir áskriftir að andvirði 2 milljónir danskra króna og minna.  Þetta kemur fram í tilkynningu.

Lokun þessa hluta hlutafjárútboðsins í Føroya Banka er í samræmi við skilmála sem lýst er í útboðslýsingu og í fréttatilkynningu nr.1 frá 4.júní 2007. Þar kemur fram að loka megi fyrir áskriftir að andvirði 2 milljónir danskra króna og minna í almennum hluta útboðsins, óháð öðrum hluta þess, í fyrsta lagi 13.júní 2007.

Gert er ráð fyrir að útboðstímabil fyrir stærri hluti í bankanum standi yfir til 19.júní 2007. Fyrirhugað er að upplýsingar um lokaverð í útboði og úthlutun bréfa verði veittar eigi síðar en 20.júní 2007. Gert er ráð fyrir að viðskipti með hlutabréfin í Kauphöll Íslands (ICEX) og hjá Copenhagen Stock Exchange (CSE) geti hafist í kringum 21.júní 2007.