*

föstudagur, 28. janúar 2022
Erlent 26. mars 2021 09:07

Lokað á H&M í netverslunum í Kína

Fataverslanir H&M í Kína eru ekki lengur að aðgengilegar á helstu netverslunum, skutlþjónustum og landakortaforritum.

Ritstjórn
epa

Fataverslanir H&M í Kína eru ekki lengur að aðgengilegar á helstu netverslunum, skutlþjónustum og landakortaforritum vegna reiði kínverskra neytenda yfir ákvörðun sænska fatarisans um að hætta að kaupa bómull frá Xinjiang héraðinu. WSJ greinir frá. 

Fatarisinn hefur verið gagnrýndur á kínverskum samfélagsmiðlum vegna yfirlýsingar fyrirtækisins á síðasta ári um að það myndi hætta að kaupa aðföng frá Xinjiang héraðinu vegna ásakana um nauðungarvinnu við bómullarframleiðslu. Yfirlýsingin fór skyndilega á flug á samfélagsmiðlinum Weibo, sem má líkja við kínverska útgáfu af Twitter, m.a. vegna færslna frá nokkrum ríkisreknum fjölmiðlum. 

Frá og með gærdeginum var ekki hægt að panta bíl að H&M verslunum á Didi, stærstu skutlþjónustuforriti í Kína, sem tók staðsetningar verslananna ekki gildar. Engar niðurstöður bárust ef leitað var að H&M á stærstu kínversku netverslunum, líkt og Alibaba, Pinduoduo og JD.com, þrátt fyrir að H&M reki 400 verslanir í Kína. Það sama átti við um stærstu landakortaforritum, þar á meðal Baidu Maps sem er rekið af stærstu kínversku leitarvélinni. Nokkrar snjallforritaverslanir (e. app stores) hafa fjarlægt smáforrit H&M. 

H&M sagði í færslu á Weibo aðganginum sínum á miðvikudaginn að fyrirtækið fylgdi alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbærni aðfangakeðja. Fatarisinn tók hins vegar fram að hann hygðist enn ætla að fjárfesta í Kína til lengri tíma. 

Kínverskir netverjar hafa einnig beint reiði sinni að öðrum alþjóðlegum fyrirtækjum, líkt og Nike og Adidas, sem gáfu frá sér sambærilegar yfirlýsingar vegna áhyggja um nauðungarvinnu í Xinjiang. Þó virðist sem einungis H&M hafi mátt þola kyrrsetningu á kínverska internetinu. 

Stikkorð: H&M Xinjiang