Aðalmeðferð í máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, vegna kröfu hans um að kyrrsetning á eignum hans verði felld úr gildi, fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þinghaldið er lokað og getur Viðskiptablaðið því ekki fylgst með aðalmeðferðinni.

Sérstakur saksóknari fór fram á að eignir Baldurs yrðu kyrrsettar í tengslum við rannsókn á viðskiptum Baldurs með hlutabréf í Landsbankanum, í september 2008. Þá seldi Baldur bréf fyrir 192 milljónir króna. Baldur sat á sama tíma í samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika.

Héraðsdómur hefur þegar hafnað kröfu Baldurs um rannsókn á viðskiptunum, og því hvort hann hafi búið yfir innherjaupplýsingum, verði hætt. Sú krafa byggði að stóru leyti á því að Fjármálaeftirlitið (FME) tilkynnti Baldri það í maí á síðasta ári að rannsókn á meintum innherjaviðskiptum hefði verið felld niður og ekki talin ástæða til frekari rannsóknar.

Í júnímánuði tók FME hins vegar málið upp að nýju, eftir að hafa borist ábending um að fundargerðir samráðshópsins, sem vistaðar voru í Seðlabankanum, hefðu að geyma upplýsingar sem bent gætu til þess að Baldur vissi meira en hann hefði sagt í bréfum til FME vegna málsins. FME vísaði málinu í kjölfarið til sérstaks saksóknara.