„Þrátt fyrir að höftin hafi nú verið við lýði í um þrjú ár og allir séu samdóma um að þau geti ekki talist varanleg lausn hefur lítið borið á umræðu um hvað eigi að taka við. Seðlabankinn hegðar sér eins og hann stefni að fljótandi krónu, Seðlabankastjóri talar um verðbólgumarkmið plús sem er einhvers konar sambland af fljótandi krónu á verðbólgumarkmiði og handstýringu allra áhrifaþátta hennar, hluti ríkisstjórnarinnar talar um upptöku evru en aðeins með inngöngu í ESB, sjálfstæðisflokkurinn talar um hversu jákvætt það hefur verið að krónan hafi fengist að veikjast og þar með styrkt útflutningsatvinnuvegina, Framsóknarflokkurinn er eins og allir vita á íslenska kúrnum og honum er skolað niður með krónu.“

Svona greindi Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAMMA, stöðu peningamála í ræðu sem hann hélt á hádegisverðarfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í dag. Á fundinum voru gjaldeyrishöftin til umfjöllunar. Gísli sagði það ekki nema von að enginn viti að hverju skuli stefnt. „En það er hins vegar mjög mikilvægt að átta sig á því að raunhæfar aðgerðir til þess að afnema höftin geta ekki hafist fyrr en lokamarkmiðið liggur fyrir,“ sagði Gísli.

Að hans mati hefur íslenska krónan runnið sitt skeið sem gjaldmiðill Íslendinga, og þó fyrr hefði verið. Saga krónunnar sé haftasaga og viðskiptakostnaður við myntina sé gríðarhár.

Gísli sagði að hringlandaháttur varðandi mögulega afléttingu hafta hafi afar slæm áhrif á ákvarðanatöku fjárfesta, jafn innlendra sem erlendra. „Innlendir fjárfestar hafa forðast það í lengstu lög að binda sitt fjármagn mjög lengi eða fjárfesta í tregseljanlegum eignum því þeir vilja eiga möguleikann á kaupa gjaldeyri við afléttingu hafta. Að sama skapi hafa erlendir aðilar sem áhuga hafa haft á að fjárfesta hér á landi hikað við að kaupa krónur því afletting hafta rétt handan við hornið hefði hugsanlega gert þeim kleift að kaupa krónurnar á veikara gengi. Endurspeglast þetta í því að fjárfestingar sem hlutfall af VLF er í sögulega lægsta gildi, síðan mælingar hófust 1945.“

Ræðu Gísla má lesa í heild hér .